Þetta kemur fram í tilkynningu sem heilbrigðisráðuneyti landsins sendi frá sér í gærkvöldi. Samkvæmt nýju reglunum þá er það aðeins keppnisfólk sem má stunda skíðaíþróttir næstu vikurnar.
B117 afbrigðið er nú um 17,8% af öllum nýjum smitum á Ítalíu og í mörgum landshlutum fer smithlutfallið hækkandi.
Breskir vísindamenn hafa sagt að B117 afbrigðið sé allt að 70% meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar. Afbrigðið uppgötvaðist fyrst í suðurhluta Englands í árslok 2020.
Til viðbótar við seinkun opnunar skíðasvæðanna voru sóttvarnaaðgerðir hertar í Toscana, Liguria, Abruzzo og Trentino. Þar verða barir og veitingastaðir að hafa lokað og fólk má ekki fara heiman frá sér nema í neyðartilfellum. Þessar aðgerðir gilda næstu 15 daga. Svæðin eru nú á appelsínugulu svæði í flokkunarkerfi landsins. Stærsti hluti landsins er á gulu svæði og eru sóttvarnaaðgerðirnar ekki eins íþyngjandi á þeim svæðum. Þó er útgöngubann í gildi eftir klukkan 22.
93.500 dauðsföll, af völdum kórónuveirunnar, hafa verið skráð á Ítalíu frá upphafi faraldursins í febrúar á síðasta ári. Aðeins í Bretlandi hafa fleiri látist þegar tölur fyrir Evrópu eru skoðaðar. Rúmlega 2,7 milljónir Ítala hafa greinst með veiruna.