Samkvæmt frétt Newsweek þá áttu göngumennirnir að skila sér aftur til byggða á miðvikudaginn en hafa ekki sést. „Þeir eru ekki komnir til baka og við erum ekki í neinu sambandi við þá,“ sagði íbúi á svæðinu í samtali við E1.ru að sögn Newsweek.
Viðkomandi sagði einnig að göngumennirnir hafi farið inn í hið goðsagnakennda Dyatlovgil til að minnast þeirra níu skíðagöngumanna sem létust þar 1959. Dauði þeirra var sveipaður mikilli dulúð þar til nýlega þegar vísindamenn skýrðu frá því að þeir hafi líklegast leyst ráðgátuna. DV fjallaði nýlega um málið.
Margar kenningar hafa verið settar fram um dauða fólksins, geimverum var kennt um, snjómanninum ógurlega, villimönnum, sem áttu að búa í fjöllunum, og einnig var sovéskum yfirvöldum kennt um, svo eitthvað sé nefnt.
Nú vakna sögur sem þessar til lífsins á ný meðal sumra eftir að áttmenningarnir hurfu í síðustu viku en enn hefur ekkert til þeirra spurst.