Í umfjöllun The Guardian um málið kemur fram að í nýrri skýrslu, sem var unnin á grunni leyniþjónustuupplýsinga frá aðildarríkjum SÞ síðustu sex mánuði, segi að hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við Íslamska ríkið muni reyna að „binda endi á jaðarsetningu sína í fréttum“ með hrinu ofbeldisverka og skilaboða til áhangenda sinna um að eyða minni tíma á samfélagsmiðlum og eyða honum þess í stað í árásir á óvini samtakanna.
Í október hvatti Abu Hamza al-Quarshi, talsmaður samtakanna, stuðningsmenn þeirra til að „eyða minni tíma á samfélagsmiðlum og meiri í áhrifamiklar árásir“ og fleira í þeim dúr.
SÞ telja að heimsfaraldurinn skapi umtalsverð tækifæri fyrir öfgasinnaða Íslamista til að láta að sér kveða og styrkja stöðu sína á svæðum þar sem þau hafa nú þegar komið sér vel fyrir. Lítil hætta sé fyrir hendi á svæðum þar sem átök standa ekki yfir, til dæmis í Evrópu.
Íslamskir öfgahópar hafa brugðist mismunandi við heimsfaraldrinum, sumir hafa reynt að nýta sér hann til að gera árásir en aðrir hafa einbeitt sér að því að afla sér aukins stuðnings á heimaslóðu. Íslamska ríkið sagði í fréttabréfi sínu, al-Naba, að kórónuveiran væri refsing frá „krossfaraþjóðunum“ og hvatti til árása á Vesturlönd þegar dregur úr áhrifum heimsfaraldursins. En það er ákveðin mótsögn í þessu því í sama fréttabréfi hafa birst langar greinar um að það sé rangt fyrir múslima að telja að þeir sleppi við heimsfaraldurinn.
Al-Kaída birti sex blaðsíðna ráðleggingar og athugasemdir um heimsfaraldurinn og sagði að hann hafi haft slæm áhrif á allan heiminn og að það sé múslimum sjálfum að kenna að faraldurinn hafi lagst á þá, það sé vegna siðferðilegrar hnignunar og spillingar sem sé algeng í ríkjum múslima.