CNN skýrir frá þessu. Fram kemur að í skýrslunni séu Kim Jong-un, einræðisherra landsins, og stjórn hans sökuð um að reka tölvuhernað gegn fjármálastofnunum til að greiða fyrir vopn og halda bágbornu efnahagslífi landsins á floti. Í einu aðildarríki SÞ tókst tölvuþrjótum einræðisstjórnarinnar að stela 316 milljónum dollara frá 2019 til 2020 eftir því sem segir í skýrslunni.
Í skýrslunni kemur einnig fram að einræðisstjórnin framleiði nauðsynlegan búnað fyrir kjarnorkuvopn sín og langdrægar eldflaugar og reyni að komast yfir efni og nauðsynlega tækni erlendis.
Það var sérfræðinganefnd SÞ um málefni Norður-Kóreu sem gerði skýrsluna en nefndin fylgist með áhrifum og framkvæmd þeirra viðskiptaþvingana sem Norður-Kórea er beitt vegna kjarnorkuvopnaáætlunar landsins.