Ekstra Bladet skýrir frá þessu. Hefur blaðið eftir Jef Jefsen, forstjóra Herning Pengeskabsfabrik, að hann sjái aðallega þrjár ástæður fyrir því að fólk vilji geyma verðmæti heima hjá sér. Sumir vilji ekki geyma peninga á bankareikningum þar sem vextir danskra banka eru neikvæðir þegar upphæðin á reikningum nær 100.000 dönskum krónum. Það þýðir að viðskiptavinir greiða bankanum fyrir að geyma peninga á bankareikningi.
Aðrir séu að fjárfesta í gulli og silfri og skartgripum í staðinn fyrir að geyma peninga í banka. Þriðja ástæðan að hans mati er heimsfaraldur kórónuveirunnar. Margir hafi upplifað ákveðið óöryggi og áttað sig á að sumu geti þeir ekki haft neina stjórn á, til dæmis kórónuveirufaraldrinum. Fólk finni sér því hluti sem það getur haft stjórn á og þar á meðal sé að verða sér úti um góða geymslu fyrir verðmætin sín.