Meðal annars kemur fram að súrefnismettun í blóði Trump hafi verið orðin mjög lág og að hann hafi barist við lungnabólgu sem veiran orsakaði. Einnig segir blaðið að Trump borið þess merki að vatn og bakteríur hafi borist í lungu hans en það er greinilegt merki um alvarleg veikindi.
Tveir heimildarmenn blaðsins segja að ástand Trump hafi verið svo alvarlegt, þegar hann var fluttur með þyrlu á Walter Reed hersjúkrahúsið í Washington D.C. þann 2. október, að óttast hafi verið að setja þyrfti hann í öndunarvél.
En út á við var dregið mjög úr alvarleika veikindanna og Trump tísti á Twitter og lét sjá sig opinberlega þótt ljóst væri að heilsa hans væri ekki upp á það besta.
Sean Conley, einkalæknir Trump, var á þessum tíma sakaður um að veita samhengislausar upplýsingar um heilsufar forsetans. Hann neitaði einnig að svara spurningum um hvort merki um lungnabólgu hefðu fundist hjá Trump. Hann sagði að súrefnismettun í blóði Trump hefði farið niður í 93% og vísaði því á bug að hún hefði farið niður undir 80% eins og var víst raunin.
Trump var lagður inn á sjúkrahús á föstudegi og útskrifaður á mánudegi eftir að hafa fengið meðferð með sterum og mótefnum frá líftæknifyrirtækinu Regeneron.