Danska ríkisútvarpið segir að 13 hafi verið handteknir, vegna málsins, í Danmörku og einn í Þýskalandi. Allt hefur fólkið verið úrskurðað í gæsluvarðhald.
Saksóknarar í Naumburg, sem er nærri Leipzig í Þýskalandi, segja að þrír sýrlenskir bræður, 33, 36 og 40 ára, séu miðpunktur rannsóknarinnar. Einn þeirra var handtekinn í Þýskalandi en hinir tveir í Danmörku. Danska ríkisútvarpið segir að á heimasíðu saksóknaraembættisins komi fram að kemísk efni hafi fundist í húsleitum í Danmörku.
PET sendi frá sér fréttatilkynningu í gær þar sem fram kemur að leyniþjónustan líti málið mjög alvarlegum augum og telji að hin handteknu hafi ætlað sér og haft getu til að fremja hryðjuverk í Danmörku. Segir PET einnig að enn steðji mikil hryðjuverkaógn að landinu.
Þýskir fjölmiðlar segja að hin grunuðu tengist hugsanlega hryðjuverkasamtökunum sem kenna sig við Íslamska ríkið. Der Spiegel segir að lögreglan hafi fundið Kóran hjá bræðrunum, þar sem búið var að undirstrika texta kafla sem snýst um baráttuna gegn „hinum vantrúuðu“. Blaðið segir að ekki liggi fyrir hvert skotmarkið hafi verið en það hafi verið kaup hópsins á efnum, á netinu, á borð við brennistein sem hafi komið lögreglunni á sporið.