Sky News skýrir frá þessu og hefur eftir Bob Gualtieri, lögreglustjóra, að þrjótunum hafi tekist að komast inn í tölvukerfi vatnsveitunnar. Þeir hafi um stundarsakir aukið magn vítissóda úr 100 hlutum á milljón í 11.100 hluta á milljón. Vítissódi getur í miklu magni valdið ertingu á húð, bruna og fleiri vandamálum. Það vildi til á föstudaginn að starfsmaður vatnsveitunnar sá hvað var að gerast og gat breytt magninu aftur í rétt horf.
Embættismenn segja að bæjarbúar, sem eru um 15.000, hafi aldrei verið í neinni hættu. Þeir segja einnig að fleiri öryggisþættir hafi valdið því að hið aukna magn vítissóda hefði ekki getað komist út í vatnið.
Nú er búið að loka fyrir aðgang utan frá að stjórnkerfi vatnsveitunnar.
Staðarlögreglan, FBI og leyniþjónustan (Secret Service) rannsaka nú málið en vita ekki hvaðan árásin var gerð.