Málið hófst af alvöru þann 11. desember 2019 þegar lögreglan lét til skara skríða um allt land gegn fólki sem var grunað um aðild að hryðjuverkastarfsemi. 21 var handtekinn í aðgerðunum. Maðurinn var þá handtekinn en hann neitar sök. Ef hann verður fundinn sekur þá á hann fjögurra ára fangelsi yfir höfði sér og að vera vísað úr landi til heimalands síns í Afríku. Þar skiptir engu þótt hann hafi verið kvæntur danskri konu síðan 2014.
Fyrir dómi hefur komið fram að maðurinn var með mörg notendanöfn á vefsíðunni Telegram en þar deildi hann að sögn saksóknara „uppskrift fyrir hryðjuverkamenn“. Hann hafði einnig veitt Íslamska ríkinu yfirráðarétt yfir skjölum í einni af tölvum sínum. Maðurinn átti erfitt með að útskýra þetta fyrir dómi og varð margsaga um þennan þátt þess. Þessi skjöl snerust um gerð eiturs, sprengjugerð, vopnanotkun og ýmislegt annað tengt ofbeldi og hryðjuverkum.
Saksóknari hefur fram að þessu farið yfir hluta þess efnis sem var í tölvum mannsins, þar á meðal fjölda upptaka af aftökum liðsmanna Íslamska ríkisins á gíslum. „Ég vildi sjá og heyra hvað var sagt og hvað gerðist því myndböndin snerust um múslima og ég er múslimi,“ sagði maðurinn.
Nokkrum dögum áður en hann var handtekinn hafði hann fengið skilaboð í gegnum Telegram, aðgangsorð frá óþekktum notanda sem lögreglan telur að hafi bein eða óbein tengsl við Íslamska ríkið. Saksóknari hefur ekki skýrt frá í hvað átti að nota þetta aðgangsorð.