Samkvæmt frétt franska dagblaðsins Var-Matin greindist systir André, sem var skírð Lucille Randon, með COVID-19 þann 16. janúar. Nú hefur hún náð sér af sjúkdómnum og getur því fagnað 117 ára afmælinu sínu á morgun. Hún býr á dvalarheimilinu Sainte–Catherine Labouré í Toulon en þar hefur hún búið síðan 2009.
Þegar hún var spurð hvort hún vildi afhjúpa leyndardóminn á bak við langlífið á síðasta ári svaraði hún: „Ég veit ekki um neinn leyndardóm. Ég hef upplifað margar þrengingar í lífinu. Ég var barn í fyrri heimsstyrjöldinni og þjáðist eins og aðrir. Það var ekki gaman. Það getur guð vitnað um.“
Hún fæddist inn í fjölskyldu sem var mótmælendatrúar en systir André snerist síðar til kaþólskrar trúar. Hún dvaldi í 30 ár á dvalarheimili í Marches í Frönsku Ölpunum áður en hún flutti til Toulon. Hún er næstelsta manneskja heims á eftir Japananum Kane Tanaka sem er 118 ára.
Á afmælisdaginn ætlar hún að ræða við ættingja sína í gegnum fjarfundabúnað og við Hubert Falco, borgarstjóra í Toulon.