Talsmenn fyrirtækisins skýrðu frá þessu fyrr í vikunni. Þeir segja að þrjóturinn hafi notað stolinn stafrænan lykil til að fá aðgang að tveimur svokölluðum „hot wallets“. Eins og nafnið gefur til kynna þá eru þetta stafræn veski þar sem rafmyntin er geymd. „Hot“ þýðir að það er beinn aðgangur að veskinu í gegnum Internetið. Það er sú leið sem þrjóturinn notaði til að komast í veskin.
Bitmart segir að fyrirtækið muni sjálft bera kostnaðinn af þjófnaðinum og bæta tap þeirra sem urðu fyrir barðinu á þrjótinum. Ekki hefur tekist að hafa uppi á honum.
Vegna málsins hefur notendum Bitmart verið gert ókleift að taka peninga út á meðan rannsókn stendur yfir á öryggismálum.