En desember í ár er ekki þannig. Á annan dag jóla mældist hitinn á Kodiak Island 19,4 gráður en aldrei áður hefur svo hár hiti mælst í Alaska á þessum árstíma. The Guardian skýrir frá þessu.
Fram kemur að í Kodiak City, sem er stærsti bær eyjunnar, hafi mælst 18,4 gráðu hiti á annan dag jóla og er það hitamet en gamla metið var 8,4 gráður. Þetta er hæsti hiti sem mælst hefur í bænum á tímabilinu frá nóvember fram í mars.
Austar í ríkinu, í Cold Bay á tá Alaskaskagans, um 800 kílómetra úti í Beringshafi, mældist hitinn 16,6 gráður á annan dag jóla. Það er hitamet í desember en gamla metið var 6,6 gráður. Í bænum Unalaska á eyjaþyrpingunni Aleuterne mældust 13,3 gráður á jóladag en það er hæsti hiti sem mælst hefur á jóladag í ríkinu.
Rick Thoman, prófessor í loftslagsfræði við University of Fairbanks, segir þennan hita „fáránlega“ háan og telur að þetta sé skýrt merki um áhrif loftslagsbreytinganna á Norðurheimskautasvæðinu. „Það er nákvæmlega þetta sem við eigum von á að sjá í hlýrri heimi,“ sagði hann í samtali við The Guardian.
Þessi hái hiti við strendur Alaska hefur þau hliðaráhrif að mikil úrkoma hefur verið yfir innri hlutum ríkisins þar sem er venjulega þurrt í desember. Þetta hefur valdið frostrigningu sem hefur lamað innviðina í innri hlutum ríkisins.