Buratti átti sér marga aðdáendur og má segja að ákveðinn „söfnuður“ hafi myndast í kringum hann í tengslum við reglulegar innhringingar hans í vinsælan útvarpsþátt. Hann var þekktur undir nafninu Mauro frá Mantua.
Í útvarpsþáttunum stærði hann sig af að vera „drepsóttar dreifari“ eftir að hafa vísvitandi farið grímulaus í stórmarkað þegar hann var veikur með 38 stiga hita. Þetta gerði hann aðeins nokkrum dögum áður en hann var lagður inn á sjúkrahús vegna COVID-19.
Hann sagðist vera að „verja stjórnarskránna“ með því að hunsa leiðbeiningar og fyrirmæli um sóttvarnir. Hann neitaði einnig að fara í sýnatöku því hann taldi að sýnatökupinnarnir bæru kórónuveiruna með sér.
Buratti var lagður inn á sjúkrahús þungt haldinn af COVID-19. Hann lá á gjörgæsludeild í 22 daga áður en hann lést á mánudaginn.
Auk þess að vera andstæðingur bólusetninga var hann iðinn við að dreifa samsæriskenningum um gyðinga og neitaði ítrekað að viðurkenna að COVID-19 væri til.