Sky News skýrir frá þessu og segir að Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO ætli að senda viðbragðsteymi til Suður-Afríku til að aðstoða þarlend yfirvöld við að takast á við faraldur Ómíkron afbrigðisins.
Teymið mun fara til Gauteng héraðs til að aðstoða við eftirlit og smitrakningu en sérfræðingar hafa varað við að Ómíkron afbrigðið geti valdið því að fleiri smitist aftur af kórónuveirunni en áður um allt land.
Endursmit er skilgreint sem smit á nýjan leik þegar að minnsta kosti 90 dagar eru liðnir frá fyrra smiti. Gottberg sagði erfitt að segja til um hversu mörgum endursmitum Ómíkron veldur.
Barry Schoub, formaður ráðgjafanefndar suðurafrísku ríkisstjórnarinnar um bólusetningar, sagði Sky News að fyrstu merki um Ómíkron væru „góðar fréttir“. Hann sagði að sjúkdómseinkenni flestra þeirra bólusettu einstaklinga sem hafa smitast hafi verið væg. Hann sagði einnig að innlögnum á sjúkrahús hafi fjölgað aðeins en ekkert í líkingu við það sem gerðist í fyrri bylgjum faraldursins. Hann benti einnig á að Ómíkron hafi aðeins verið þekkt í um viku og það þurfi svo sannarlega að fylgjast vel með því.
Gottberg sagði að margir hafi nú þegar smitast af kórónuveirunni í Suður-Afríku en fyrstu gögn bendi til að „fyrri smit veiti ekki vörn gegn smiti af völdum Ómíkron“.