Bókin er sett saman af 942 ljóðum sem innihalda spádóma um framtíðina að margra mati. En ljóðin eru ekki skrifuð þannig að hægt sé að lesa beint úr þeim hvað hann á við, það þarf að túlka þau og það telja ýmsir sig geta gert. Vitað er að biblíutextar höfðu mikil áhrif á Nostradamus og reynsla hans af hungursneyð sömuleiðis.
Bók hans er enn mjög vinsæl vegna spádóma hans og skiptir það marga engu að hún er rúmlega 400 ára gömul. Spádómarnir eru mjög „opnir“ og hægt að túlka þá á marga vegu.
En grípum niður í það sem sumir segja að séu spádómar hans fyrir árið 2022.
Árið 1555 spáði hann því að loftslagsbreytingarnar verði svo slæmar að hækkandi hitastig muni „hálf sjóða“ fiskinn í sjónum.
Hann spáði því einnig að sögn að mannkynið muni ekki upplifa rigningu í 40 ár og þegar það rigni loksins mun mikil flóð verða sem muni eyða mörgum þjóðum. Daily Mail skýrir frá þessu.
Heimsbyggðin hefur upplifað miklar hitabylgjur á síðustu árum sem og flóð og þurrka og Sameinuðu þjóðirnar hafa varað við því að náttúruhamfarir muni verða tíðari en áður og öflugri.
SÞ hafa varað við því að meðalhitinn á jörðinni muni líklega hækka um 1,5 gráður innan 20 ára, áratugum fyrr en áður var talið. Frá 1970 hefur hitinn á heimsvísu hækkað hraðar en á nokkru öðru 50 ára tímabili síðustu 2.000 árin að sögn SÞ. Síðustu fimm árin hafa verið þau hlýjustu síðan mælingar hófust um 1850.
Linda Mearns, loftslagsvísindamaður hjá Bandarísku loftslagsrannsóknarstofnuninni, segir að það sé öruggt að ástandið muni versna. „Ég get ekki séð að nein svæði séu örugg . . . þú getur ekki hlaupið, þú getur ekki falið þig,“ sagði hún.
Margir tengja eflaust öflugar hitabylgjur á síðustu árum sem og gróðurelda og flóð við spádóma Nostradamusar um sjóðandi höf og flóð í biblíustíl í ekki svo fjarlægri framtíð. Fyrr á árinu urðu mikil og mannskæð flóð í Þýskalandi, Belgíu, Lúxemborg, Sviss og Hollandi. Þetta voru verstu flóð í álfunni í marga áratugi. Gríðarlega öflug hitabylgja varð mörg hundruð manns að bana í Bandaríkjunum og Kanada síðasta sumar og mikil flóð urðu í Henan í Kína í lok júlí.
Svo virðist sem Nostradamus hafi einnig spáð því að loftsteinn lendi í árekstri við jörðina og valdi gríðarlegri eyðileggingu og miklu manntjóni. Ekki er ljóst af spádómi hans hvenær þetta á að gerast en hann skrifaði að „mikill eldur“ muni falla af himni ofan.
Í spádómi sínum virðist hann gefa til kynna að nokkrir loftsteinar muni lenda í árekstri við jörðina og valda eldum og eyðileggingu.
Fyrr á árinu fór loftsteinn á stærð við tveggja hæða strætisvagn ansi nærri jörðinni en enginn stór loftsteinn hefur lent í árekstri við heimkynni okkar það sem af er ári. Bandaríska geimferðastofnunin NASA segir að á 2.000 ára fresti, að meðaltali, komi stórir loftsteinar nærri jörðinni og lendi jafnvel í árekstri við hana. Þeir geti valdið miklu tjóni og þannig passa þeir við spádóm Nostradamusar. NASA telur að til að loftsteinn valdi tjóni og vanda á heimsvísu þurfi hann að vera um 750 metrar á lengd hið minnsta. Minni loftsteinar geta valdið staðbundnu tjóni, sérstaklega ef þeir lenda á landi.
Loftsteinar eru leifar frá myndum sólkerfisins fyrir um 4,6 milljörðum ára. Flestir þeirra eru á braut á milli Júpíters og Mars. Öðru hvoru breytist braut þeirra vegna aðdráttarafls pláneta. Þá getur braut þeirra færst til þannig að þeir taki stefnuna á jörðina. Það gerðist einmitt með risastóra loftsteininn sem gerði út af við risaeðlurnar fyrir 65 milljónum ára.
Nostradamus er einnig sagður hafa spáð hungursneyð á heimsvísu vegna verðbólgu sem valdi miklum verðhækkunum þegar efnahagslífið á í vök að verjast.
Þessi hungursneyð mun valda átökum því fólk mun berjast um náttúruauðlindirnar sem verða fyrir áhrifum af loftslagsbreytingunum.
Ef litið er til nútímans þá höfum við orðið vitni að verðhækkunum að undanförnu vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveirunnar. Verð á eldsneyti hefur hækkað sem og verð á ýmsum hrávörum. Einnig hefur flutningsverð hækkað mikið.
Það er því ekki bjart fram undan á árinu 2022 ef spádómar Nostradamusar rætast eða öllu heldur túlkanir á spádómum hans.