Alexandre Anesio, prófessor við Árósaháskóla, vinnur að rannsóknum á loftslagsbreytingunum á Norðurheimskautinu og hann hefur áhyggjur af þróuninni. Ástæðan er að hvergi í heiminum er hitamunurinn meiri en þar og það getur haft mikil áhrif.
Forskning.no skýrir frá þessu. Fram kemur að Anesio stýri rannsókn þar sem rannsakað er hvað gerist með örverur á borð við bakteríur, veirur, sníkjudýr og sveppi þegar ísinn og sífrerinn bráðna. Stór hluti af þessum rannsóknum fer fram á Svalbarða. Vísindamennirnir hafa séð að eftir því sem sífrerinn hefur bráðnað hafa örverur í jarðveginum vaknað til lífsins. Í sífreranum er tvöfalt meira magn af koltvíildi en í andrúmsloftinu. Þegar örverurnar vakna sjá þær til þess að enn meira koltvíildi losnar út í andrúmsloftið.
Anesio segir að þegar örverurnar þiðni geti þær reynst mjög gagnlegar og hægt að nota þær til að búa margt til, þar á meðal bóluefni.
En þær eru ekki bara góðar því af þeim 78 bakteríutegundum sem vísindamennirnir hafa fundið á Svalbarða þá brjóta 32 þeirra rauð blóðkorn niður. „Þetta er alveg nýtt og við erum að reyna að skilja þetta,“ sagði Anesio og benti á að þetta snúist ekki bara um Svalbarða og Norðurheimskautasvæðið. Í Ölpunum bráðni ísinn einnig og þaðan sé enn styttri leið fyrir örverur til að berast í fólk og gera það veikt.