Morðið hefur enn einu sinni hrist upp í sænsku þjóðinni sem er þó orðin ýmsu vön þegar kemur að skotárásum og morðum en slíkir atburðir hafa verið ansi algengir síðustu árin. Í flestum tilfellum eru skotárásirnar og morðin tengd átökum glæpagengja.
Sá sem var myrtur í síðustu viku var 34 ára og er talinn hafa verið leiðtogi glæpagengis sem hefur árum saman átt í blóðugum átökum við annað glæpagengi í Stokkhólmi. Hann var þriðji bróðirinn sem var myrtur á átta árum. Fjórði bróðirinn afplánar nú fangelsisdóm og hefur því hugsanlega sloppið við byssukúlur vegna þess.
Maðurinn var skotinn skömmu fyrir hádegi þegar hann var nýkominn í lyftu niður í gestamóttöku Best Western Hotel Fridhemsplan á Kungsholmen. Expressen hefur eftir sjónarvottum að morðinginn hafi beðið sallarólegur í horni í gestamóttökunni. Hafi setið þar með fartölvu í kjöltunni og poka sér við hlið, í honum var morðvopnið. Þegar maðurinn steig út úr lyftunni, stóð morðinginn upp, gekk að honum skaut hann mörgum skotum. Hann fór síðan út úr gestamóttökunni og flúði á brott á rafmagnshlaupahjóli sem hafði verið komið fyrir utan við hótelið.
Sænskir fjölmiðlar hafa fjallað töluvert um hversu kaldrifjaður morðinginn var því lögreglustöð er í aðeins nokkurra hundruð metra fjarlægð frá hótelinu.
Hinn myrti er talinn hafa verið leiðtogi hins svokallað Österbergagengis sem er úr suðurhluta Stokkhólms. Nokkrir tugir manna eru taldir vera í þessu glæpagengi. Gengið er sagt hafa verið umfangsmikið í fíkniefnaviðskiptum, svikum af ýmsum tagi og fjárkúgunum. Það hefur árum saman átt í deildum og átökum við annað glæpagengi í Stokkhólmi.
Hinn myrti var fyrir nokkrum árum grunaður um morð á félaga í hinu glæpagenginu og sat í gæsluvarðhaldi um hríð en var sýknaður af ákæru um aðild að morðinu. Bróðir hans afplánar nú sjö ára fangelsisdóm fyrir morðtilraun en hann skaut á nokkra félaga í hinu glæpagenginu en það heitir Bredängsgengið. Sænskir fjölmiðlar segja að gengin hafi lent upp á kant við hvort annað fyrir nokkrum árum vegna þjófnaðar á kókaíni. Þessar deilur hafa síðan þróast yfir í skotárásir og morð.