Þúsundfætlur hafa lengi verið þekktar en þrátt fyrir nafnið þá hafa þær tegundir, sem voru þekktar fram að þessu, ekki verið með 1.000 fætur. Aldrei áður höfðu fundist þúsundfætlur með meira en 750 fætur.
Þessi nýja tegund hefur fengið heitið Eumillipes Persephone en hún hefur nú endanlega staðfest að það er ekki rangnefni að nefna dýr af þessari tegund þúsundfætlur. Eumillipes þýðir „ekta þúsundfætla“ en Persephone er vísun í enska nafnið á drottningu undirheimanna í grískri goðafræði.
Tegundin er ekki með nein augu eða lit eins og svo algengt er um dýr sem lifa á svo miklu dýpi. Dýrin geta orðið 95 millimetrar að lengd og 0,95 millimetrar á breidd.
Niðurstöður rannsóknarinnar hafa verið birtar í vísindaritinu Scientific Reports. Þar kemur fram að kvendýrin séu með fleiri fætur en karldýrin. Eitt kvendýr var með 1.306 fætur og annað með 998. Eitt karldýr var með 818 fætur og annað með 778.