Evrópska geimferðastofnunin, ESA, tilkynnti nýlega að hún hefði í samvinnu við Rússnesku geimferðastofnunina, Roscosmos, fundið „töluvert“ magn af vatni í jörðu í Valles Marineris sem er risastórt gljúfur, Grand Canyon Mars má kannski segja. Videnskab skýrir frá þessu.
„Við uppgötvuðum að miðhluti Valles Marineris er stútfullur af vatni, miklu meira en við áttum von á,“ er haft eftir Alxey Malakhov, hjá Roscosmos, í fréttatilkynningu. Fram kemur að svæðið minni mjög á sífrerasvæði á jörðinni þar sem vatn/ís er varanlega undir yfirborðinu vegna kuldans.
Talið er að hugsanlega sé fjöldi slíkra staða á Mars en þeir verða mjög mikilvægir ef við mennirnir látum verða af því að taka okkur búsetu á plánetunni.
Fram að þessu höfum við ekki haft verkfæri til að finna þessa neðanjarðarvatnsgeyma en frá 2018 hefur gervihnötturinn ExoMars Trace Gas Orbiter, TGO, verið á braut um Mars og gert vísindamönnum kleift að skoða niður á allt að eins metra dýpi undir yfirborðinu.