Þetta segir brasilíski loftslagsvísindamaðurinn Luciana Vanni Gatti. „Það ríkir neyðarástand. Skógurinn er við það að hrynja,“ sagði hún í samtali við Aftonbladet.
Amazonregnskógurinn gegnir hlutverki risastórrar kolefnissíu og dregur meira en koldíoxíð í sig en nokkurt annað landsvæði á jörðinni. Með þessu myndar skógurinn ákveðna vörn varðandi loftslagsbreytingarnar.
En með hverju tré sem er fellt færist vistkerfi hans nær vendipunktinum þar sem ekki verður aftur snúið.
Carlos Nobre, loftslagsvísindamaður við háskólann í Sao Paulo, hefur lengi varað við afleiðingum skógarhöggs í Amazon. Hann segir að ef fram heldur sem horfir komi að því að ekki verði aftur snúið og þá breytist skógurinn í eyðimörk.
Það myndi hafa í för með sér að ómetanlegt vistkerfi tapast og að mikið magn koldíoxíðs endi í andrúmsloftinu og hraði þar með loftslagsbreytingunum enn frekar.
„Þetta er martröð. Það ríkir neyðarástand. Skógurinn er við það að hrynja,“ sagði Gatti.
Hún sagði að breytingarnar á skóginum sjáist meðal annars vel úr lofti. „Skógarhöggið hefur gjörbreytt honum. Grænn regnskógurinn er horfinn og í staðinn eru komnir gulir sojaakrar,“ sagði hún.
Hún sagði að öll þau lönd sem kaupa soja frá Amazon beri ábyrgð á þessu. „Það eru miklir peningar tengdir þessari eyðileggingu. Hver kaupir eiginlega þau tré sem eru felld í Amazon? Hver kaupir nautakjötið? Hver kaupir soja? Það er kominn tími til að tala um það,“ sagði hún.