fbpx
Þriðjudagur 05.nóvember 2024
Pressan

Líður að endalokum breska konungdæmisins? Verður Bretland lýðveldi?

Kristján Kristjánsson
Þriðjudaginn 21. desember 2021 06:10

Hluti konungsfjölskyldunnar samankominn 2019. Mynd:Getty

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árið í ár hefur ekki verið auðvelt fyrir bresku konungsfjölskylduna og þar með Elísabetu II drottningu. Tveir prinsar, Andrew sonur hennar og barnabarnið Harry, hafa verið mikið til umfjöllunar í fjölmiðlum og má segja að hneykslismál þeim tengd hafi hrist grunnstoðir konungsfjölskyldunnar. Hún hefur þó staðið þessi mál af sér og má þakka Elísabetu II, drottningu, fyrir það.

Hún nýtur gríðarlegra vinsælda meðal þegna sinna og hefur tekist að koma konungsfjölskyldunni í gengum hvert óveðrið á fætur öðru. Hún er einhverskonar skjöldur sem verst óvinsældum og gagnrýni sem dynur á fjölskyldunni. Hún er eiginlega límið sem heldur þessu öllu saman.

En drottningin er orðin 95 ára og öllum ljóst að hún lifir ekki að eilífu og heilsu hennar hefur hrakað á árinu. í bakgrunninum stendur sonur hennar, Karl prins, og bíður þess að taka við sem konungur. En þessi rúmlega sjötugi krónprins er ekki nærri því eins vinsæll og móðir hans og margir efast um að hann geti komið fjölskyldunni í gegnum hneykslismál framtíðarinnar.

Prinsarnir sem eru til vandræða

Mál Andrew prins, sem hefur verið sakaður um kynferðisbrot, munu vera í hámæli fram á næsta ár. Hann hefur lengi verið svarti sauðurinn í fjölskyldunni og árið í ár hefur verið sérstaklega slæmt vegna umfjöllunar um mál bandaríska barnaníðingsins Jeffrey Epstein sem var vinur Andrew. Haustið 2019 var hann sakaður um aðild að vændi og mansali þegar tvær konur stigu héldu því fram að þær hefðu verið seldar mansali og neyddar til kynmaka við prinsinn. Önnur þeirra var aðeins 17 ára þegar þetta á að hafa átt sér stað. Allt tengist þetta máli Epstein sem er enn til umfjöllunar hjá bandarískum dómstólum, þó óbeint því hann er látinn og nú er það samstarfskona hans og fyrrum unnusta, Ghislaine Maxwell, sem situr á ákærubekknum.

Andrew prins.

 

 

 

 

 

 

 

Harry prins gerði ömmu sinni heldur engan greiða á árinu. Í byrjun síðasta árs tilkynntu hann og eiginkona hans, Meghan hertogaynja, að þau myndu draga sig í hlé frá konungsfjölskyldunni og flytja til Bandaríkjanna. Í mars á þessu ári komu þau fram í spjallþætti Oprah Winfrey þar sem þau ræddu um ástæður þess að þau sögðu skilið við konungsfjölskylduna. Meghan sagði þá meðal annars að hún hefði glímt við sjálfsvígshugsanir og að hirðin hefði neitað að veita henni aðstoð. Hún sagði einnig að þegar hún var ólétt af syni þeirra hjóna hafi meðlimur konungsfjölskyldunnar viðrað áhyggjur af húðlit sonarins en Meghan er svört á hörund. En rétt er geta þess að í viðtalinu töluðu Harry og Meghan bara fallega um drottninguna. Sömu sögu er ekki að segja af ummælum Harry um föður sinn, Karl prins, en hann sagði hann meðal annars hafa hætt að svara símhringingum hans.

Mál beggja prinsanna hafa vakið óánægju meðal bresks almennings en hafa þó ekki valdið miklu tjóni enn sem komið er og má líklega rekja það til vinsælda drottningarinnar.

Hvað gerist þegar hún deyr?

Ekki er útilokað að allt springi í loft upp varðandi konungsfjölskylduna þegar Elísabet kveður þessa jarðvist og að algjör viðhorfsbreyting verði á meðal þjóðarinnar.

Hneykslismál framtíðarinnar geta þannig riðið fjölskyldunni að fullu þegar Karl hefur tekið við sem konungur. Hann er ekki nærri því eins vinsæll og móðir hans og er ansi umdeildur. Elísabet hefur haft lag á að sameina þjóðina en Karl hefur frekar þótt vera laginn við að kljúfa þjóðina. Hann hefur ákveðnar skoðanir á mörgum málum og hefur til dæmis látið til sín taka í umhverfismálum. Mörgum Bretum þykir óviðeigandi að verðandi þjóðhöfðingi sé að blanda sér í pólitík enda er það ekki venjan að þjóðhöfðinginn geri það.

Karl Bretaprins

Ljóst er að Karl verður ekki eins vinsæll og móðir hans og spurningin er hvernig hann mun hegða sér þegar hann verður konungur. Ef hann breytir um stefnu og verður hlutlausari varðandi pólitísk mál gæti honum tekist að tryggja konungsfjölskyldunni ákveðnar vinsældir meðal þjóðarinnar. En ef honum mistekst að verða sameiningartákn þjóðarinnar er hætt við að þjóðin snúi baki við fjölskyldunni og þar með konungdæminu. Það getur á endanum orðið til þess að alvarlega verði rætt að leggja konungdæmið af og taka upp lýðveldi.

Elísabet II.

Sumir sjá fyrir sér að það besta sem geti gerst sé að Elísabet sitji eins lengi við völd og hægt er og stytti þannig þann tíma sem Karl mun sitja sem konungur enda er hann kominn á áttræðisaldur. Hann verði einhverskonar biðleikur þar til Vilhjálmur, sonur hans, og Katrín hertogaynja taka við en þau njóta miklu meiri vinsælda en Karl.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Í gær

Hlaupatúrar öryggisvarða koma upp um forseta

Hlaupatúrar öryggisvarða koma upp um forseta
Pressan
Í gær

Dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að myrða 15 ára fyrrum unnustu sína

Dæmdur í ævilangt fangelsi fyrir að myrða 15 ára fyrrum unnustu sína
Pressan
Fyrir 2 dögum

Risastór helíumauðlind í Minnesota gæti leyst skortinn í Bandaríkjunum

Risastór helíumauðlind í Minnesota gæti leyst skortinn í Bandaríkjunum
Pressan
Fyrir 2 dögum

Af hverju gerðu víkingarnir Norður-Ameríku ekki að nýlendu sinni?

Af hverju gerðu víkingarnir Norður-Ameríku ekki að nýlendu sinni?
Pressan
Fyrir 3 dögum

Heimsins mest einmana tré vantar maka til að geta fjölgað sér – Þar kemur gervigreind til sögunnar

Heimsins mest einmana tré vantar maka til að geta fjölgað sér – Þar kemur gervigreind til sögunnar
Pressan
Fyrir 3 dögum

Fjarlægðu stórt heilaæxli í gegnum augabrún

Fjarlægðu stórt heilaæxli í gegnum augabrún