Þetta kemur fram í nýrri skýrslu um stöðu mannréttindamála í þessu harðlokaða einræðisríki. Skýrslan var gerð af suðurkóresku mannréttindasamtökunum Transitional Justice Working. The New York Times skýrir frá þessu.
Skýrslan var birt í síðustu viku en hún byggist á viðtölum við 683 landflótta Norður-kóreumenn. Markmiðið með skýrslunni var að staðsetja hvar fólk, sem tekið hefur verið af lífi, er jarðsett og hvar það var tekið af lífi. Frá 2015 hafa samtökin skráð 27 aftökur á vegum einræðisstjórnarinnar.
Allt frá því að Kim Jong-un komst til valda fyrir tíu árum hefur hann tekið hart á því sem hann telur vera hættulega poppmenningu frá grönnunum í Suður-Kóreu. Hann telur að kvikmyndir, sjónvarpsþættir og tónlist þaðan spilli Norður-kóreumönnum.
Á síðasta ári tóku ný lög gildi sem heimila opinberar aftökur fólks sem horfir á eða dreifir efni suðurkóreskra fjölmiðla.