Í umfjöllun Danska ríkisútvarpsins kemur fram að nánar tiltekið séu það 0,8% smitaðra barna sem verða fyrir barðinu á langvarandi eftirköstum eftir smit. Er þá miðað við að eftirköstin vari lengur en fjórar vikur eftir smit.
Luise Borch, aðalhöfundur rannsóknarinnar og deildarlæknir á barna- og unglingadeild sjúkrahússins í Herning, sagði að niðurstöðurnar sýni að langtímaáhrif á börn séu ekki eins algeng og komið hafi fram í öðrum rannsóknum.
Rannsóknin var gerð í samvinnu vísindamanna á barna- og unglingadeildum sjúkrahússins í Herning, Háskólasjúkrahússins í Árósum og Háskólasjúkrahússins í Álaborg.
Rannsóknin leiddi einnig í ljós að eftirköstin hverfa hjá nær öllum börnum á einum til fimm mánuðum og að þau þarfnist ekki sjúkrahúsinnlagna vegna þeirra.
Rúmlega 30.000 börn á aldrinum 0-17 ára tóku þátt í rannsókninni. Þeim var skipt í tvo hópa. Í öðrum voru börn sem höfðu smitast af veirunni en í hinum, samanburðarhópi, þau sem ekki höfðu greinst með veiruna. Börnin og foreldrar þeirra fengu spurningalista og voru svörin svo borin saman. Í ljós kom að í báðum hópum voru börn sem höfðu glímt við einkenni sem vörðu í meira en fjórar vikur. Ekki er vitað hvað olli því. Borch sagði að hugsanlega hafi börnin í samanburðarhópnum orðið fyrir áhrifum af sóttvarnaaðgerðum (samfélagslokun) eða af annarri veiru sem hafi valdið ákveðnum sjúkdómseinkennum. Þau hafi verið fjarlægð úr rannsókninni og eftir standi 0,8 prósent sem hafi fengið einkenni sem tengist kórónuveirunni.
Vísindaritið European Journal of Pediatrics hefur samþykkt að birta rannsóknina.