Þetta eru niðurstöður nýrrar rannsóknar norska landlæknisembættisins en hún snerist um jólahlaðborð sem var haldið á veitingastaðnum Louise í Osló 26. nóvember en þetta er líklegast umtalaðasta jólahlaðborð heims þessa dagana.
111 gestir sóttu jólahlaðborðið og af þeim smituðust 75 af kórónuveirunni. 98% þeirra höfðu lokið bólusetningu gegn kórónuveirunni. Að minnsta kosti 45 smituðust af Ómikron. Tölurnar eru þó enn aðeins á reiki því ekki er búið að fullrannsaka sum sýnin enn.
Rannsóknin hefur verið birt í ritinu Eurosurveillance.
Talið er að Ómikron hafi verið nýkomið til Noregs og hafi komið með nokkrum starfsmönnum Scatecs, sem höfðu verið í Suður-Afríku, en starfsfólk Scates sótti jólahlaðborðið umrætt kvöld.
Auk 75 jólahlaðborðsgesta greindust 65 aðrir gestir á veitingastaðnum með kórónuveiruna.
Enginn af hinum smituðu hefur þurft að leggjast inn á sjúkrahús og flestir hafa skýrt frá vægum einkennum, aðallega hósta, stífluðum nösum og hálssærindum.