Samkvæmt frétt Independent þá greindist Keith með kórónuveiruna þann 10. nóvember. Hann var lagður inn á gjörgæsludeild og settur í dá þann 21. nóvember. Þegar heilsu hans hrakaði enn frekar fór Darla með mál hans fyrir dóm til að fá dómara til að fyrirskipa læknum að gefa Keith Ivermectin.
Ivermectin er lyf sem vinnur gegn sníkjudýrum og er ætlað til notkunar á dýr. Andstæðingar bólusetninga hafa lengi haldið því fram að lyfið sé kraftaverkalyf gegn COVID-19 og sögum þar um hefur mikið verið dreift í hópum íhaldsmanna á Facebook og öðrum samfélagsmiðlum.
En bandaríska lyfjastofnunin hefur ekki samþykkt lyfið til notkunar á fólk því tilraunir með það hafa ekki sýnt neinn ávinning af notkun þess. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO segir að engar sannanir liggi fyrir um virkni lyfsins gegn COVID-19.
Í úrskurði Clyde Vedder, dómara, frá 3. desember kemur fram að hann geti ekki fyrirskipað starfsfólki sjúkrahússins að gefa Keith lyfið en hann heimilaði Darla að fá utanaðkomandi heilbrigðisstarfsmann til að gera það.
En lyfið hafði engin áhrif á Keith og hann lést á sunnudaginn, nokkrum dögum eftir að hann fékk skammt númer tvö af lyfinu.