Dagens Nyheter skýrir frá þessu. Fram kemur að fólki hafi verið gert að taka þátt í æfingum þrátt fyrir að það væri veikt og slasað. Einnig segja hermennirnir að þeir hafi ekki fengið nóg að borða og ekki fengið að sofa nóg. Þeim var refsað og óviðeigandi orðfæri notað í samskiptum við þá, þar á meðal kynferðislegt.
„Við höfum séð að fólk, sem gegnir herskyldu, hefur upplifað hegðun sem er ekki ásættanleg hjá okkur hjá Ledningsregementet,“ sagði Therese Timpson, upplýsingastjóri herdeildarinnar, í samtali við TT fréttastofuna.
Æðstu yfirmenn herdeildarinnar taka þátt í hraðnámskeiði í þessari viku sem á að gera þá betur í stakk búna til að takast á við mál af þessu tagi. Þess utan hefur vinnuhópur verið settur á laggirnar en hann á að skila tillögu um hvernig sé hægt að gera betur í menntun og þjálfun, þeirra sem gegna herskyldu, á næsta ári.