Aftonbladet skýrir frá þessu. Segir blaðið að þetta snúist um að vísindamenn hafi fundið kórónuveiru í svokölluðum stuðningsfrumum við lyktarnemana í nefinu. Veiran truflar starfsemi stuðningsfrumanna og svæðið í kringum þær, við lyktarnemana, verður óvirkt er haft eftir Johan Lundström, dósent í klínískri taugasjúkdómafræði við Karólínsku stofnunina. Hann sagði að veiran hafi líklega einnig áhrif á það svæði heilans sem tekur við lykt frá nefinu. Vísindamennirnir fundu ummerki um kórónuveiru á þessu svæði og telja því að það geti skýrt af hverju lyktarskynið fer úr skorðum við smit. „Veiran kemst þangað en ekki lengra,“ sagði hann um veru hennar í heilanum.
Þessi uppgötvun gæti verið góð frétt fyrir þá sem hafa orðið illa fyrir barðinu á þessum einkennum því þetta getur auðveldað þjálfun lyktarskynsins á nýjan leik.