Þetta segir Pieter Streicher, prófessor og sérfræðingur í greiningu veira, við háskólann í Jóhannesarborg, í færslu á Twitter. Hann segist telja að út frá fyrirliggjandi tölum muni faraldurinn ná hámarki í Gauteng á milli 10. og 20. desember.
Augu sérfræðinga hafa beinst sérstaklega að Gauteng síðustu vikur eftir að Ómíkron kom fram á sjónarsviðið. Gauteng er fyrsta svæðið þar sem faraldur Ómíkronsmita skall á. Þar er fjöldi daglegra smita við að ná jafnvægi eftir að hafa tæplega fimmtíufaldast á nokkrum vikum. Einnig fer innlögnum á sjúkrahús nú fækkandi í héraðinu, þar er Jóhannesarborg, sem og hlutfall jákvæðra sýna af heildarfjölda sýna.
„Í Evrópu óttast margir að Ómíkron muni smita allt að 70% íbúa. En Ómíkron mun aðeins ná að sýkja á milli 15-25% íbúa Suður-Afríku og við erum aðeins með vægar sóttvarnaaðgerðir,“ skrifaði Streicher á Twitter. Þær vægu sóttvarnaaðgerðir sem hann nefnir eru að útgöngubann er á milli klukkan 24 og 04.
Vísindamenn eru almennt þeirrar skoðunar að Ómíkron séu miklu meira smitandi en önnur afbrigði veirunnar en eru einnig þeirrar skoðunar að enn sé of snemmt að álykta um alvarleika smita af völdum afbrigðisins því enn liggi ekki nægilega mikið fyrir af gögnum um veikindi þeirra sem hafa náð sér af smiti.
Gögn frá suðurafrísku heilbrigðisyfirvöldum frá í gær um sjúkrahúsinnlagnir af völdum Ómíkron sýna að færri hafa þurft að leggjast inn vegna alvarlegra veikinda og dauðsföll eru færri en í fyrri bylgjum faraldursins. Rétt er að hafa í huga að tæplega fjórðungur Suðurafríkubúa er bólusettur. Heilbrigðisyfirvöld geta þó ekki sagt með vissu til um fjölda dauðsfalla af völdum Ómíkron þar sem dauðsföll eru ekki skráð út frá hvaða afbrigði af veirunni fólk var smitað af.