Samið var um greiðslu bótanna í gær eftir fimm ára lögfræðilega togstreitu á milli brotaþolanna og bandaríska fimleikasambandsins, bandarísku ólympíunefndarinnar og tryggingafélaga samtakanna.
Wall Street Journal skýrir frá þessu. Segir blaðið að um eina hæstu bótagreiðslu sögunnar sé að ræða til þolenda kynferðisofbeldis.
Nassar var dæmdur í 60 ára fangelsi árið 2017 fyrir vörslu barnakláms. 2019 var hann dæmdur í annars vegar 125 ára fangelsi og hins vegar 175 ára fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn mörg hundruð bandarískum fimleikastúlkum og konum.
Rúmlega 260 stúlkur og konur hafa sakað hann um að hafa brotið á þeim kynferðislega. Hann braut á þeim undir því yfirskini að um læknisfræðilega meðferð væri að ræða.
Nassar játaði að hafa brotið kynferðislega gegn stúlkum og konum á meðan hann starfaði sem læknir hjá Michigan ríkisháskólanum og bandaríska fimleikasambandinu sem sér um þjálfun ólympíufara. Hann var læknir fimleikalandsliðsins á fjórum ólympíuleikum.
Simone Biles, margfaldur ólympíumeistari í fimleikum, hefur verið í fararbroddi fyrir þolendur afbrota hans.