Það eru auðvitað ekki óvænt tíðindi að það sé hollt að hreyfa sig en það þarf ekki endilega að skella sér í líkamsræktarstöð eða hlaupa marga kílómetra til að hafa jákvæð áhrif á heilsuna. Svo einföld athöfn sem 30 mínútna göngutúr getur nánast gert kraftaverk fyrir líkamann. Þetta sýna niðurstöður bandarískrar rannsóknar.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að 30 mínútna göngutúr daglega getur komið í veg fyrir ótímabær elliglöp, bætir andlegt heilbrigði og dregur úr líkunum á að fá Alzheimerssjúkdóminn.
Eftir því sem Glaukoma Research Institute segir þá geta göngutúrar dregið úr þrýstingi á augun sem getur haldið aftur af gláku.
Daglegir göngutúrar geta á áhrifaríkan hátt komið í veg fyrir hjartavandamál og hjartaáföll. Þeir hafa einnig áhrif til lækkunar blóðþrýstings og auka blóðflæðið segja bandarísku hjartaverndarsamtökin.
Göngutúrar gera að verkum að súrefnismagn í blóðinu eykst og það er gott fyrir lungun. Djúpur og góður andardráttur getur einnig dregið úr ýmsum einkennum tengdum lungnasjúkdómum.
30 mínútna göngutúr daglega getur dregið úr líkunum á að fá ristilkrabbamein og hann eykur einnig brennslu líkamans og vinnur gegn hægðatregðu segir í umfjöllun Telegraph.
Göngutúr eykur fitubrennslu því stórir vöðvar virkjast í göngutúr og þannig eykst fitubrennslan. Göngutúr á meðalhraða getur svarað til þess að 300 hitaeiningum sé brennt á klukkustund. Ef þú gengur 10.000 skref daglega, eins og oft er mælt með, jafnast það á við eina æfingu í líkamsræktarstöð segir bandaríska lýðheilsustofnunin.
Göngutúrar styrkja bein og liði og draga úr verkjum, stífleika og bólgum. Þeir koma einnig í veg fyrir beinþynningu og draga úr líkunum á beinbroti segir á vef Arthritis.
Göngutúrar geta einnig dregið úr bakverkjum og þeir sem finna fyrir slíkum verkjum ættu að skella sér í göngutúr. Þeir auka blóðflæðið um hryggjarsúluna og bæta hreyfanleika líkamans segir á vef Ny Teknik.
Göngutúrar eru einnig góðir fyrir heilann því þeir róa hann og hafa því mjög jákvæð áhrif á hann.
Þegar upp er staðið snýst þetta ekki um að maður hafi ekki tíma til að fara í 30 mínútna göngutúr, þetta snýst um að maður gefur sér ekki tíma til þess. Það er því ekkert annað að gera en taka sér þessar 30 mínútur daglega og fara í göngutúr. Líkaminn og heilinn njóta góðs af því.