Norska ríkisútvarpið segir að landlæknisembættið sé nú að rannsaka málið í samstarfi við borgaryfirvöld í Osló. Gestirnir hafa fengið spurningalista þar sem þeir eru meðal annars spurðir um ferðir þeirra inni á veitingastaðnum, hverja þeir ræddu við, hverja smituðu þeir síðan og hvenær þeir voru bólusettir.
Þetta eru spurningar sem heimsbyggðin bíður nú eftir svörum við en jólahlaðborðið og það sem þar gerðist hefur vakið mikla athygli víða um heim því þetta er einn fárra ofursmitatburða sem vitað er um þar sem Ómíkron kemur við sögu.
Niðurstöður rannsóknarinnar verða birtar fljótlega sem svokallað „preprint“ en það þýðir að þær hafa ekki verið ritrýndar. Ástæðan er að mikill áhugi er á niðurstöðunum og því liggur á að koma þeim út svo hægt verði að nota þær til að ákveða viðbrögð við faraldrinum.