Breskur áfrýjunardómstóll komst að þeirri niðurstöðu í morgun að framselja bæri rannsóknarblaðamanninn Julian Assange til Bandaríkjanna þar sem hann á yfir höfði sér kæru fyrir meintar njósnir. Unnusta Assange segir að þessari niðurstöðu verði áfrýjað.
Ákvörðun áfrýjunardómstólsins í morgun sneri við ákvörðun fyrra dómstigs sem sagði að ekki bæri að framselja Assange sökum andlegrar vanheilsu hans, en dómarar töldu líkur á að Assange myndi illa þola bandaríska dómskerfið sem og fangelsin og að líkur væru á að hann gripi til ráðstafana á borð við að enda eigið líf.
Bandaríkin héldu því fram fyrir áfrýjunardómstól að geðrænn vandi Assange væri ekki svo alvarlegur að hann gæti komið í veg fyrir framsal og hann væri ekki svo veikur að hann glími við sjálfsvígshugsanir. Auk þess fullvissuðu Bandaríkin dómara um að Assange yrði ekki gert að sæta einangrun eða vanvirðandi meðferð í fangelsi.
Breski áfrýjunardómstóllinn taldi að loforð Bandaríkjanna um mannúðlega meðferð Assange nægði til að hægt væri að fallast á framsalið.
Verði Assange framseldur á hann yfir höfði sér allt að 175 ára fangelsi fyrir meintar njósnir, en hann verður þá ákærður fyrir birtingu á gífurlegu magni af trúnaðarupplýsingum bandarískra stjórnvalda en bandarísk stjórnvöld halda því fram að Assange hafi staðið fyrir því að tölvuþrjótar brutust inn í gagnagrunn hersins til að stela þaðan gögnum.
Unnusta Assange, Stella Moris, segir að ákvörðuninni verði áfrýjað við fyrsta tækifæri. Hún segir að niðurstaðan sé hættuleg. „Hvernig getur það verið sanngjarnt, hvernig getur það verið rétt, hvernig getur það verið mögulegt að framselja Julian til sama lands og ætlaði að láta drepa hann.“
Kristinn Hrafnsson, ritstjóri Wikileaks, segir niðurstöðuna skell fyrir rannsóknarblaðamennsku í heiminum, en að baráttan sé ekki búin. Hann skrifaði á Twitter:
„Á mannréttindadegi Sameinuðu þjóðanna hefur breskur dómstóll steypt rannsóknarblaðamennsku niður í hyldýpið og viðhaldið pyntingum Assange. Baráttan mun ekki enda hér.“
En þar að auki hefur Kristinn sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann segir:
„Enn og aftur er líf Julians í bráðri hættu, og einnig réttindi blaðamanna til að birta gögn sem koma stjórnvöldum og fyrirtækjum illa. Þetta mál snýst um frjálsa fjölmiðun og rétt þeirra til að birta fréttir án þess að vera hótað af valdamiklum öflum.“