Þetta hefur The Sun eftir henni. Glynn hafði ekki viljað láta bólusetja sig og vísaði til þess að hann væri grænmetisæta og hafði áhyggjur af að bóluefnin hefðu verið prófuð á dýrum að sögn Emmu sem hefur sjálf lokið bólusetningu.
Glynn lést á gjörgæsludeild þann 16. nóvember eftir því sem segir á GoFundMe síðu sem Emma setti upp til að safna fyrir útför hans. Hann hafði þá legið á gjörgæsludeild í viku.
Hann ákvað að láta ekki bólusetja sig því hann hafði lesið að lyfjafyrirtæki á borð við Pfizer og Moderna hefðu prófað bóluefnin á dýrum. Það varð til þess að auka á efasemdir hans um bóluefni og bólusetningar.
„Hann var mjög góð sál, hann var grænmetisæta og vildi ekki láta bólusetja sig við COVID-19 af því að bóluefnin voru prófuð á dýrum,“ sagði Emma í samtali við The Sun.
Málin tóku óheillavænlega þróun í október þegar Glynn fékk kvef og greindist síðan með COVID-19. Heilsu hans hrakaði frá degi til dags. Emma hringdi á sjúkrabíl 2. nóvember en ekki var hægt að fá sjúkrabíl þar sem gríðarlegt álag var á sjúkraflutningamenn á þeim tíma. Hún ók honum því sjálf á sjúkrahús en þá var hann orðinn meðvitundarlaus.
Þann 10. nóvember var Glynn lagður í dá eftir að hafa verið settur í öndunarvél. Hann lést 16. nóvember, nokkrum mínútum eftir að slökkt var á öndunarvélinni.