Á fundi á vegum suðurafrískra heilbrigðisyfirvald á mánudaginn sagði Unben Pillay, heimilislæknir í Midrand í útjaðri Jóhannesborgar, að afbrigðið sé enn nýtt og að þau tilfelli sem hann hafi séð hafi verið væg. „Við fáum sjúklinga með þurran hósta, hita, nætursvita og mikla beinverki. Bólusett fólk er yfirleitt ekki eins veikt,“ sagði hann.
Angelique Coetzee, heimilislæknir í Pretoríu, sagði að margir þeirra sjúklinga sem hún hafi tekið á móti hafi verið með óvenjuleg einkenni, aðallega mikla þreytu og engin hafi misst bragð- eða lyktarskyn.
Það geta liðið nokkrar vikur þar til við höfum fengið öruggar niðurstöður varðandi hvers eðlis Ómíkron er en vísbendingar eru um að bóluefni veiti að minnsta kosti einhverja vörn gegn afbrigðinu. Wassila Jassat, hjá suðurafrísku smitsjúkdómastofnuninni, sagði að í borginni Tshwane, þar sem Ómíkron uppgötvaðist fyrst, séu 87% sjúkrahúsinnlagna hjá óbólusettu fólki.