Rétturinn kveður væntanlega ekki upp dóm í málinu fyrr en í júní en sérfræðingar telja, á grundvelli þess sem kom fram fyrir dómi í gær, miklar líkur á að rétturinn muni staðfesta lögmæti þungunarrofslaganna í Mississippi. Níu dómarar sitja í réttinum en aðeins þrír þeirra teljast frjálslyndir.
Bandarískir fjölmiðlar segja líklegt að Hæstiréttur muni gera undantekningu á dómi réttarins í máli Roe vs Wade frá 1973 en sá dómur markaði þáttaskil varðandi rétt kvenna til þungunarrofs í Bandaríkjunum. Með honum má segja að þungunarrof hafi verið lögleitt í Bandaríkjunum. Lögin koma í veg fyrir að ríki landsins geti bannað þungunarrof á fyrstu 24 vikum meðgöngu.
Við málflutninginn í gær kom að sögn berlega í ljós að íhaldssömu dómararnir styðja hugmyndir um að kasta niðurstöðu dómsins í máli Roe vs Wade algjörlega fyrir róða að sögn New York Times.
Bandarískir fjölmiðlar segja að andrúmsloftið í réttarsalnum hafi verið þrungið spennu og var Stephen Breyer, sem er frjálslyndur, þungorður þegar hann varaði hina dómarana við: „Þið verðið að vera alveg viss,“ sagði hann um niðurstöðuna í þessu mikilvæga máli varðandi rétt kvenna til þungunarrofs.
Ef rétturinn staðfestir lögmæti laganna í Mississippi getur það orðið til þess að þungunarrof verði ólöglegt eða mjög takmarkað í um helmingi ríkja Bandaríkjanna að mati Guttmacher stofnunarinnar sem er rannsóknarstofnun sem styður rétt kvenna til þungunarrofs.