The Independent skýrir frá þessu. Líkin voru í innsigluðum pokum sem voru merktir sérstaklega þannig að ekki færi á milli mála að lík COVID-19-sjúklinga væru í þeim. Þetta voru lík Durga Smithra, 40 ára konu, og N L Muniraju, 67 ára karlmanns.
Þau létust bæði í fyrstu bylgju faraldursins í byrjun júlí 2020, þremur dögum eftir að þau voru lögð inn á sjúkrahús.
Talsmaður lögreglunnar sagði að hringt hafi verið frá sjúkrahúsinu síðasta laugardag og skýrt frá því að ræstitæknar hefðu fundið tvö lík í líkhúsinu sem var lokað í desember á síðasta ári þegar nýtt var tekið í notkun. Hræðilegan óþef lagði frá sumum kælihólfunum og þegar ræstitæknarnir opnuðu þau fundu þeir líkin tvö að sögn talsmannsins.
Ættingjar voru fengnir til að bera kennsl á líkin og þau voru send í krufningu og síðan afhent fjölskyldum hinna látnu.
Ættingjar þeirra segja að það hafi verið mikið áfall þegar lögreglan bað þá um að koma og bera kennsl á líkin, 15 mánuðum eftir að þeim var skýrt frá andláti þeirra.