Hún bað dóminn um að sýna sér vægð, meðal annars vegna þess að hún hafi gifst El Chapo þegar hún var enn á unglingsaldri og vegna þess að hún hafi fæðst inn í eiturlyfjahring.
Hún var fundin sek um fíkniefnaviðskipti og peningaþvætti.
Hún fæddist í Bandaríkjunum fyrir 32 árum. Hún tók þátt í mörgum fegurðarsamkeppnum þegar hún var ung og kynntist El Chapo þegar hún var aðeins 17 ára. Hún giftist honum á 18 ára afmælisdeginum sínum en þá var hann fimmtugur.
Saksóknari tók tillit til aldurs hennar í tengslum við málið og viðurkenndi að hlutverk hennar og áhrif innan eiturlyfjagengisins hafi verið mjög takmörkuð. Hún hafi aðallega veitt eiginmanni sínum stuðning.
Saksóknari krafðist því fjögurra ára fangelsis yfir henni og niðurstaðan var þriggja ára fangelsi.
Verjandi hennar lagði mikla áherslu á ungan aldur hennar þegar hún kynntist El Chapo og að hún væri í mikilli hættu vegna samstarfs hennar við bandarísk yfirvöld. „Ég er ekki viss um að hún geti nokkru sinni snúið aftur heim,“ sagði verjandinn, Jeffrey Licthman.