Í Austurríki mega óbólusettir ekki lengur fara á veitingastaði, í klippingu og á stóra viðburði í Vín. Nú mega aðeins bólusettir og þeir sem hafa jafnað sig á smiti sækja slíka staði í höfuðborginni. Sýnataka veitir sem sagt ekki aðgang að þessum stöðum
Í Búlgaríu mega óbólusettir ekki fara á veitingastaði og bari.
Í Lettlandi hefur þingið samþykkt lög sem heimila atvinnurekendum að senda óbólusett starfsfólk heim ef það vill ekki láta bólusetja sig gegn veirunni. Samkvæmt lögunum þarf ekki að greiða fólkinu laun á þessum tíma. Eftir ákveðinn tíma má segja starfsfólkinu upp eða gera kröfu um að það vinni heima hjá sér.
Í Danmörku hefur ekki enn verið gripið til sóttvarnaaðgerða en engar slíkar aðgerðir eru í gildi eins og er. Þó má vænta þess að gripið verði til einhverra aðgerða nú í vikunni. Í gærkvöldi skrifaði Mette Frederiksen, forsætisráðherra, á Facebook og Twitter að hún sjái ekki annað í stöðunni en að grípa þurfi til aðgerða til að rjúfa smitkeðjuna. Á milli 2.000 og 3.000 smit hafa greinst á dag síðustu fjóra daga. Vöxturinn í faraldrinum hefur síðustu daga orðið til þess að þeim hefur fjölgað þrefalt sem mæta daglega til að fá fyrsta skammtinn af bóluefni gegn veirunni skæðu.
Í Grikklandi þurfa óbólusettir launþegar að fara í sýnatöku tvisvar í viku til að fá að mæta til vinnu. Starfsfólki í heilbrigðiskerfinu og í umönnunarstörfum tengdum eldra fólki hefur verið gert skylt að láta bólusetja sig.
Í Þýskalandi var met slegið hvað varðar fjölda smita á einni viku en síðustu vikuna greindust 171.717 smit samkvæmt tölum frá Johns Hopkins háskólanum. Smittíðnin er nú 201,1 smit á hverja 100.000 íbúa.