Ole Thomsen, forstjóri hjá Region Midtjylland, sagðist hafa fengið upplýsingar um að rúmenska heilbrigðiskerfið sé komið að fótum fram og við það að láta undan álaginu vegna heimsfaraldursins. Hann sagði að Danir hafi aðstoðað Rúmena áður í baráttunni við faraldurinn en nú hafi rúmensk yfirvöld beðið Dani og Þjóðverja um að taka við 30 gjörgæslusjúklingum.
Þjóðverjar sögðust geta tekið við 18 sjúklingum og í kjölfarið voru Danir beðnir um að taka við eins mörgum og þeir gætu.
Það voru Region Midtjylland og Region Syddanmark sem fengu beiðni um að taka við sjúklingum frá Rúmeníu því minnsta álagið er á sjúkrahúsin í þessum landshlutum. Region Midtjylland samþykkti að taka við tveimur en Region Syddanmark taldi sig ekki geta tekið við neinum núna.
Fyrir helgi sagði Søren Brostrøm, landlæknir, að hætta sé á að dönsk sjúkrahús ráði ekki við álagið af völdum kórónuveirufaraldursins á næstu mánuðum, hættan sé sérstaklega mikil í desember og janúar ef ekki verði gripið til sóttvarnaaðgerða.