Það hefur Norska ríkisútvarpið eftir Rostrup Nakstad, aðstoðarforstjóra hjá norska landlæknisembættinu. „Það besta sem getur gerst núna er að Omikronafbrigðið reynist valda vægari veikindum og að bóluefni virki á það,“ sagði hann. Hann sagði einnig að þrátt fyrir að afbrigðið sé meira smitandi en önnur afbrigði þá ráði Norðmenn við þann þátt vegna mikillar þátttöku í bólusetningum ef bóluefni virka gegn afbrigðinu.
Þar sem afbrigðið er svo nýuppgötvað er margt enn óljóst um eiginleika þess en enn sem komið er segja sérfræðingar að upplýsingar frá Suður-Afríku bendi til að afbrigðið valdi mjög vægum sjúkdómseinkennum. Þar er það aðallega yngra fólk sem hefur smitast af afbrigðinu.
En ef rétt reynist að afbrigðið valdi vægari sjúkdómseinkennum en önnur afbrigði veirunnar þá ætti það að hafa í för með sér að færri þurfi að leggjast inn á sjúkrahús. Með því væri hægt að „láta“ fleiri smitast til að auka hjarðónæmið en þetta er þó háð því að Omikron veiti ónæmi gegn öðrum afbrigðum veirunnar.
„Sumir hafa sagt að afbrigðið valdi mjög vægum sjúkdómseinkennum. Það getur valdið víðtæku hjarðónæmi og ef það veldur ekki alvarlegum veikindum er hægt að ná hjarðónæmi án þess að íþyngja heilbrigðiskerfinu og án þess að fólk verði alvarlega veikt. Það er óskastaðan varðandi þetta afbrigði,“ sagði Ernst Kristian Rødland, hjá norsku lýðheilsustofnuninni.
Nú þegar er unnið að rannsóknum á virkni bóluefna gegn afbrigðinu. BioNTech, sem þróaði bóluefnið sem er kennt við Pfizer, segir að reiknað sé með að niðurstaða um virkni bóluefnisins gegn afbrigðinu muni liggja fyrri eftir tvær vikur í síðasta lagi. Ef það þarf að breyta því til að það virki gegn afbrigðinu á það að vera hægt innan sex vikna.