Nýlega fékk Vereide bréf sem rifjaði þennan hryllingsatburð upp. Það var Breivik sem sendi honum bréfið úr fangelsinu. Vereide skýrði frá þessu á Facebook. Hann segir að bréfið, sem var stílað á hann, innihaldi ýmsar fullyrðingar og ummæli sem heyrist oft frá öfgahægrimönnum.
„Hann skrifar að hann vilji að hvítir sæki í sig veðrið. Frábært. Ég hef ekki nennt að lesa nema smávegis af þessu. Þetta er svo fáránlegt. Markmiðið er að fá fólk til liðs við hreyfingu nýnasista,“ sagði Vereide í samtali við Dagbladet.
Hann sagðist hafa fengið kökk í hálsinn þegar hann sá frá hverjum bréfið var og að hann hafi verið búinn að lesa að það væri frá „hvítir til valda hreyfingunni“ þegar hann áttaði sig á að bréfið var frá Breivik.
Vereide var 22 ára þegar hryllingurinn á Útey átti sér stað. Hann komst undan með því að hlaupa undan Breivik og fela sig á bak við stein. Hann sá þegar Breivik drap fjölda ungmenna. Sjálfur komst hann síðan frá eyjunni í bát.
Hann segir að það hafi verið mjög óþægilegt að fá þetta bréf en hann eigi erfitt með að taka afstöðu til hvað fangar mega og mega ekki. „En þetta er ekki eitthvað sem ég vil að aðrir, sem lifðu af eða ættingjar fórnarlamba, lendi í, að fá bréf sem þetta,“ sagði hann.