Í upphafi var það staðsett í sannkallaðri paradís fyrir kafara en fljótlega hvarf þetta fljótandi lúxushótel af sjónarsviðinu en nýlega skaut því aftur upp á yfirborðið. En nú er lítill glæsibragur yfir því, eiginlega alls enginn og í algjörri niðurníðslu liggur hótelið nú í Norður-Kóreu. CNN skýrir frá þessu.
Seasons Barrier Reef Resort var opnað fyrir gestum 9. mars 1988. Þar voru 176 herbergi, hægt var að taka við 350 gestum. Það var næturklúbbur á hótelinu, tveir veitingastaðir, rannsóknarstofa, bókasafn og verslun með köfunarbúnað. Þetta var fimm stjörnu hótel sem var staðsett við Kóralrifið mikla undan austurströnd Ástralíu.
Eigandi þess, ítalski kaupsýslumaðurinn Doug Tarca, eyddi 45 milljónum dollara, sem svara til um 100 milljóna dollara í dag, í ævintýrið. En ævintýri varð þetta eiginlega aldrei. Ótryggt veður, erfiðar samgöngur og sjóveikir gestir gerðu reksturinn erfiðan.
„Ef það var óveður og þú ætlaðir að komast í land til að ná flugi þá gat þyrlan ekki flogið. Það var heldur ekki hægt að sigla. Þetta var mikið vandamál,“ sagði Robert de Jong, safnvörður hjá Maritime Museum of Townsville í samtali við CNN. Þetta varð til þess að gestir hættu að koma og reksturinn gekk því illa og á endanum seldu eigendurnir hótelið. Það var fyrirtæki í Víetnam sem keypti það en síðar endaði hótelið í Norður-Kóreu. Þar liggur það við festar í Kumgang og verður fljótlega rifið að sögn CNN.