Óttast er að Rússar hafi áhuga á að ná flakinu til að komast yfir háþróaðan tæknibúnað og háleynilegan vopnabúnað sem er í flugvélinni.
Bandaríkin hafa ekki farið leynt með að þau standa vörð um vélarnar og þá tækni sem þær byggja á. Það kom til dæmis berlega í ljós þegar Donald Trump, fyrrum forseti, ógilti samning um sölu á rúmlega 100 slíkum vélum til Tyrklands. Ástæðan var að tyrkneska ríkisstjórnin keypti rússneskt eldflaugavarnarkerfi. Bandaríkjamenn höfðu engan áhuga á að rússneskir sérfræðingar fengju aðgang að F-35 vélunum.
F-35 eru fullkomnustu orustuþotur heims og því vilja eflaust margir komast yfir slíka vél. Hún er til dæmis yfirburðavél þegar kemur að því leynast fyrir ratsjám. Með sérstakri meðhöndlun á yfirborði vélanna eru þær þannig úr garði gerðar að ratsjár sjá þær ekki fyrr en þær eru komnar mjög nærri. Vélarnar eru einnig búnar mjög þróuðu ratsjárkerfi sem getur skannað stór svæði og varað við hugsanlegum óvinum.
Vélin hrapaði skömmu eftir að hún hóf sig til lofts frá flugmóðurskipinu HMS Queen Elizabeth en þá stóðu æfingar á vegum NATO yfir í Miðjarðarhafi. Flugmaðurinn náði að skjóta sér út en vélin hrapaði í sjóinn undan ströndum Egyptalands en þó á alþjóðlegu hafsvæði. Það þýðir að í raun geta allir leitað að flakinu þar.