Í könnuninni var kíkt nánar á það sem virðist vera vaxandi tilhneiging til að flugfarþegar hegði sér illa um borð í vélunum og beinist þessi slæma hegðun bæði að áhöfnum og öðrum farþegum.
Í grein í Airlines Magazine er vitnað í niðurstöður könnunarinnar. Fram kemur að fjöldi tilvika, þar sem ósáttir og erfiðir flugfarþegar (flugdólgar), hafa komið við sögu hafi tvöfaldast á síðasta ári miðað við árin á undan. Þessi sama þróun er sögð hafa haldið áfram á þessu ári.
Tim Colehan, aðstoðarframkvæmdastjóri hjá Government and Industry Affairs hjá IATA sagði að ein skýring á þessari aukningu flugdólga séu þær sóttvarnaaðgerðir sem gripið hefur verið til á flugvöllum og um borð í flugvélum. Hann sagði að það væri jafn alvarlegt brot að nota ekki andlitsgrímu um borð í flugvélum og að nota ekki öryggisbelti. Það liggi ákveðnar öryggiskröfur á bak við þessar kröfur.
Hann sagði að við höfum vanið okkur á að nota öryggisbeltin en fyrir suma sé það stórt stökk að þurfa að nota andlitsgrímur, sérstaklega ef fólk er almennt á móti sóttvarnaaðgerðum.
Í könnuninni sagði eitt flugfélag að um 1.000 tilvik hefðu komið upp á einni viku þar sem farþegar voru óstýrilátir og vildu ekki beygja sig undir þær öryggisreglur sem gilda um borð í flugvélum.
Þessi þróun hefur verið meira áberandi í Bandaríkjunum en annars staðar. Federal Airline Association tilkynnti nýlega að samtökin hefðu skráð 4.600 mál þar sem óstýrilátir flugfarþegar komu við sögu frá janúar og fram til október á þessu ári. 72% af málunum snerust um farþega sem neituðu að nota andlitsgrímur um borð í flugvélum eða á flugvöllum.