Hún lenti skyndilega í því að mörg af greiðsluöppunum í síma hennar virkuðu ekki lengur og hún gat til dæmis ekki keypt sér lottómiða. Hún var mjög undrandi á þessu því hún vissi að hún átti nóg af peningum á reikningnum sínum til að borga fyrir lottómiðann. Hún ákvað því að kanna málið betur.
En hún átti enga von á svarinu sem hún fékk. Það var nefnilega búið að skrá hana látna hjá norsku þjóðskránni. VG skýrir frá þessu.
„Ég var skráð látin á fimmtudegi og á lífi á föstudegi. Svo ég var „dáin“ í 24 klukkustundir,“ sagði hún í samtali við VG.
Það var Sankt Olavs sjúkrahúsið í Þrándheimi sem hafði skráð Solvor látna þrátt fyrir að þessi 65 ára kona væri sprelllifandi. Eftir að VG hafði sett sig í samband við sjúkrahúsið höfðu forsvarsmenn þess samband við Solvor og báðust afsökunar á þessum mistökum.
Hún hafði legið á sjúkrahúsinu í eina viku en eins og hún benti á í samtali við VG þá voru veikindin ekki það alvarleg að þau hafi orðið henni að bana.