Í sjúkrabíl á flugbrautinni voru þær neyddar í skoðun hjá kvensjúkdómalækni til að kanna hvort þær væru nýbúnar að eignast barn. En konunum var ekki sagt af hverju þurftu að gangast undir skoðun hjá lækninum. Kona, sem var með fimm mánaða gamalt barn, var einnig færð til skoðunar þrátt fyrir að hún gæti af náttúrulegum orsökum ekki verið móðir barnsins sem fannst í ruslafötunni. The Sydney Morning Herald skýrir frá þessu.
Önnur kona, sem var ein á ferð, sagði að hún hafi verið beðin um að standa upp og taka farangur sinn og vegabréf með. Vopnaðir verðir fylgdu henni síðan í gegnum flugvöllinn að sjúkrabíl. Hún sagðist hafa óttast um líf sitt og krafðist þess að önnur kona kæmi með henni inn í sjúkrabílinn til að vera vitni að því sem þar færi fram.
Frönsk kona á sextugsaldri var einnig neydd í skoðun. Hún segist hafa verið „skelfingu lostin“.
Aðgerðirnar voru fordæmdar á alþjóðavettvangi og forsætisráðherra Katar baðst afsökunar á þeirri meðferð sem konurnar hefðu fengið. Hann sagði í færslu á Twitter að atburðurinn „endurspeglaði ekki lög og gildi Katar“ og að ríkisstjórnin myndi grípa til nauðsynlegra aðgerða til að tryggja að svona lagað myndi ekki eiga sér stað aftur. Lögreglumaðurinn sem fyrirskipaði rannsóknina á konunum var síðan dæmdur til að greiða háa sekt og vikið frá störfum í hálft ár.
Konurnar krefjast bóta fyrir þann miska sem þær urðu fyrir og þær vilja um leið tryggja að aðrar konur fái ekki svipaða meðferð. Þær krefjast einnig formlegrar afsökunarbeiðni frá yfirvöldum í Katar.
Tímasetning málshöfðunarinnar kemur sér illa fyrir Katar sem hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir aðbúnað verkamanna í undanfara HM í knattspyrnu sem fer fram í landinu að ári. Yfirvöld í landinu hafa að undanförnu reynt að bæta ímynd sína á alþjóðavettvangi og hafa reynt að fullvissa umheiminn um að réttindi kvenna séu virt í landinu.