Veitingastaðir, kaffihús, barir, leikhús, sérvöruverslanir og hárgreiðslustofur verða lokaðar næstu 10 dagana hið minnsta en hugsanlegt er að aðgerðirnar verði framlengdar um 10 daga.
Hótel verða að loka en þó mega ferðamenn, sem dvelja á þeim þegar aðgerðirnar taka gildi, gista þar áfram. Jólamarkaðir verða lokaðir en skíðasvæði verða opin fyrir þá sem hafa lokið bólusetningu.
Fólk á að halda sig heima en er þó heimilt að yfirgefa heimilin við ákveðnar aðstæður. Það má til dæmis fara út til að hreyfa sig en aðeins má hitta eina manneskju frá öðru heimili í einu.
Vinnustaðir og skólar verða opnir en foreldrar eru hvattir til að halda börnum heima ef þess er nokkur kostur.
Wolfgang Mueckstein, heilbrigðisráðherra, sagði í samtali við ORF sjónvarpsstöðina að staðan væri þannig að nú þurfi að bregðast við. Eina færa leiðin, að lama samfélagsstarfsemi, væri hörð en eini möguleikinn í stöðunni til að fækka smitum.
Fyrir viku var gripið til hertra sóttvarnaaðgerða sem beindust aðeins að óbólusettum fólki en nú bætast bólusettir í hópinn.
Ríkisstjórnin tilkynnti einnig fyrir helgi að frá og með 1. febrúar 2022 verði bólusetning gegn kórónuveirunni gerð að skyldu í landinu.
Á bilinu 14.000 til 15.000 smit hafa greinst daglega í Austurríki að undanförnu en í sumar voru smitin nokkur hundruð á dag og lengst af í október voru þau tæplega 3.000 á dag.