Margir kannast eflaust við að hafa borðað aðeins of mikið á aðfangadagskvöld, jafnvel svo mikið að buxurnar hafi þrengt að. En hjá bresku konungsfjölskyldunni er mikið gert úr aðalmáltíð jólanna og þar á fólk að taka hraustlega til matarins.
Fyrir nokkrum árum afhjúpaði Ingrid Seward, sem er sögð sérfræðingur í málefnum konungsfjölskyldunnar, nokkrar af hefðum bresku konungsfjölskyldunnar um jólin. Þessu sagði hún frá í samtali við Grazia.
Hún sagði meðal annars að fjölskyldan haldi alltaf jól í Sandringham sem er í Norfolk. Þar vill Elísabet hafa alla fjölskylduna hjá sér um jólin. En það sem vakti mesta athygli í afhjúpun hennar er að fyrir hverja máltíð eru gestirnir vigtaðir og svo aftur að henni lokinni. Ástæðan? Jú, drottningin vill vera þess fullviss að gestirnir hafi borðað nóg og drukkið.
En þessi hefð er ekki uppfinning Elísabetar heldur er hún rakin allt aftur til Edward sjöunda en hefur greinilega haldið velli frá valdatíma hans.