Það var Harry Singh sem fann Pingu þegar hann var í göngutúr í Birdlings Flat sem er byggð sunnan við Christchurch. BBC hefur eftir honum að í fyrstu hafi hann talið að um leikfang væri að ræða en þegar Pingu hreyfði höfuðið hafi hann áttað sig á að svo var ekki.
Hann birti mynd af Pingu á Facebook og er ekki annað að sjá á henni en að Pingu sé einmana og á ókunnugum slóðum. „Hún hreyfði sig ekki í klukkutíma . . . og virtist örmagna,“ sagði Singh.
Hann hringdi í Thomas Stracke, sem hefur árum saman bjargað mörgæsum og aðstoðað þær við að komast aftur út í náttúruna, og bað um aðstoð. Stracke brá mjög þegar hann heyrði að um Adélie mörgæs væri að ræða því tegundin heldur aðeins til á Suðurskautinu. Stracke og dýralæknir handsömuðu Pingu og fluttu i öruggt skjól.
Rannsókn leiddi í ljós að Pingu var aðeins undir kjörþyngd og glímdi við vökvaskort. Við þessu var brugðist með því að gefa mörgæsinni vökva og mat í gegnum rör.
Ætlunin er að sleppa Pingu á öruggri strönd á Banks Peninsula en þar eru engir hundar sem geta ógnað henni.
Þetta er í þriðja sinn sem Adélie mörgæs finnst á Nýja-Sjálandi. Ein fannst 1962 og önnur 1992.
Philip Seddon, prófessor í dýrafræði við Otago háskólann, sagði í samtali við The Guardian að ef Adélie mörgæsir fari að leggja leið sína til Nýja-Sjálands árlega þá sé það mikið áhyggjuefni. Þá hafi eitthvað breyst í sjónum sem við verðum að öðlast skilning og þekkingu á.