Þessu var svarað af Trausta Jónssyni, veðurfræðingi, á Vísindavef Háskóla Íslands í febrúar 2010. Þar segir að eindregin norðanátt hafi ríkt í janúar 1918 sem hafi verið óvenjulega köld vegna þess að sérstaklega mikið var af hafís í norðurhöfum, bæði í Austur-Grænlandsstraumnum og í Barentshafi.
Haustið 1917 var óvenjukalt og í Reykjavík er það eitt af þremur köldustu haustunum frá upphafi mælinga en álíka kalt var 1880 og 1981. Á Akureyri var haustið 1917 það kaldasta frá upphafi mælinga.
Trausti segir að janúar 1918 hafi verið kaldasti mánuðurinn hér á landi á 20. öldinni en vitað sé um nokkra álíka kalda eða kaldari mánuði á 19. öld. 38 stiga frost mældist í Möðrudal og Grímsstöðum á Fjöllum.
Aðalkuldakastið hófst 6. janúar og varði í tæpar þrjár vikur á Suðurlandi en út janúar fyrir norðan. Framan af var heldur hvassviðrasamt en um 20. janúar var vindur orðinn hægari og þá urðu mestu kuldarnir á flestum stöðum. Febrúar var síðan kaldur, en þó ekki nálægt því að vera metmánuður hvað það varðar, og mars var frekar hlýr.
Trausti segir að á þessum tíma hafi mælingar frá hafsvæðunum norðan við land verið af skornum skammti en telja megi að norðanáttin hafi fylgt austurströnd Grænlands allt frá Íshafinu norðan Grænlands og Svalbarða. Að auki var óvenjulega mikill ís í norðurhöfum. Loftstraumar hafi blásið yfir ísiþakin hafsvæði og því hafi norðanáttin verið kaldari en venjulega og hafi líklega haft mikil áhrif á hitafarið.
Hvað varðar þetta mikla magn hafíss 1917 og 1918 segir Trausti að ekki sé auðvelt að svara af hverju svo var en nefna megi að 1915 og 1917 hafi loftþrýstingur hér á landi verið með allra hæsta móti. Ýmsar staðreyndir um loftþrýsting og veðurfar bendi til að langvinnur háþrýstingur hér á landi ýti undir ísmyndun í norðurhöfum.